Athyglisvert miðað við áróðurinn

Þetta eru mjög athyglisverðar upplýsingar því miðað við allan áróðurinn undanfarin ár þar sem hamast hefur verið yfir verðtryggingunni þá velja hana samt flestir. Þetta er alveg í hrópandi ósamræmi við stefnu Samfylkingarinnar sem vill afnema verðtryggingu (og losna við krónuna) að fólk velur einmitt verðtryggingu.

Mér hefur alltaf fundist að Samfylkingin sé sá flokkur sem hlustar illa á þjóðina og stefna flokksins er á öndverðu miðað við meirihlutann. Samt lætur flokkurinn eins og hann sé með puttann á púlsinum hjá þjóðinni.

Verðtrygging er ekki alslæm eins og af er látið. Haldist verðbólga lág með aðhaldi í ríkisrekstri þá haldast afborganir mjög svipaðar sem gefur fólki tækifæri á að búa til áætlanir til framtíðar sem standast nokkuð vel. Þetta snýst ekki eingöngu um eignarhlut eins og umræða í kringum verðtryggingu er. Fólk þarf alltaf húsnæði yfir höfuðið og eignarhlutur skapast á lengri tíma.

Þessi reynsla sínir að stjórnmálaflokkum er ekki sjálfgefið að hafa vit fyrir fólki.


mbl.is Flest heimili velja verðtryggð lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það er mjög margt byggt á misskilningi í þessari stuttu færslu.

Aðalástæða þess að enn eru veitt verðtryggð lán er að annað er ekki í boði hjá stærsta lánveitandanum: Íbúðalánasjóði.

Hinsvegar er allt rétt sem þú segir um Samfylkinguna.

Guðmundur Ásgeirsson, 28.10.2014 kl. 08:01

2 Smámynd: Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir

Er þetta bara ekki vísir á annað hrun eftir 20-30 ár, ef það verður svo langt í það....

Að hafa verðtryggingu áfram á peningum á bara ekki að vera hægt vill ég meina og er bara ekki að gera sig og það er tíminn búinn að sýna okkur Íslendingum...

Verðtrygging er til að tryggja verð á vörum og hlutum og hefur verið í gildi þar...

Peningar eru bara vörur og hlutir í breyttu formi og að hafa verðtryggingu þar á líka á bara ekki að vera hægt þó svo að gert sé...

Verðtrygging á laun allra er það sem þarf að koma aftur ef það á að hafa þessa verðtryggingu á annað borð á vörum og hlutum svo þessi ójöfnuður haldist ekki endarlaust áfram...

Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 28.10.2014 kl. 08:57

3 identicon

Meginástæða þess að heimilin hafa í auknu mæli leitað í verðtryggð lán á ný er sú að nær ógerningur er fyrir venjulegt fjölskyldufólk að standast greiðslumat vegna óverðtryggðra lána.

Þá hefur það líka áhrif að þrátt fyrir að verðbólga sé afar lítil eru vextir enn mjög háir. Af því leiðir að verðtryggðu lánin líta út fyrir að vera hagkvæmari en þau í raun eru nema vaxtastig haldist jafnhátt út lánstímann og verðbólga jafn lítil.

Aðalsteinn (IP-tala skráð) 28.10.2014 kl. 10:19

4 identicon

Kíkti af gamni inn á lánasíðu eins bankans og þar blasti ástæðan við: 3,7% verðtryggðir vextir vs. 7.05% óverðtryggðir. Hvorutveggja breytilegir vextir. Augljóst mál hvort maður myndi velja í 2 - 2,5% verðbólgu.

ls (IP-tala skráð) 28.10.2014 kl. 13:08

5 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Samfylkingin hefur aldrei lagt til að verðtrygging verði bönnuð. Þar á bæ hafa menn þvert á móti sagt að við það sé óraunhæft að afnema verðtryggingu meðan við notum íslensku krónuna. Hins vegar hefur sá flokkur lagt til að við göngum í ESB og tökum upp Evru til að lostna undan því að þurfa að nota verðtryggingu á lán. Ef við gerum það þá mun okkur bjóðast óverðtryggð lán á mun lægri vöxtum en við getum nokkurn tíman vænst meðan við notum jafn óstöðugan gjaldmiðil og krónuna.

Fulyrðing Guðmundar Ásgeirssonar um að verðtrygging sé meira valin vegna þess að Íbúðalánasjóður láni ekki verðtryggt er út í hött. Það eru ekki margir lánþegar sem geta aðeins fengið lán frá Íbúðalánasjóði en ekki bönkunum. Greiðslumöt Íbúðalánasóðs eru svipuð og hjá bönkunum. Það getur reyndar verið munur í litlum byggðarlögum úti á landi þar sem fasteignir seljast illa og bankarnir halda því að sér höndum. En hér á höfuðborgarsvæðinu geta nánast allir sem eiga kost á lánun frá Íbúðalánasjóði líka fengið lán hjá bönkunum.

Ástæðurnar fyrir því að flest heimili taka frekar verðtryggð lán en óverðtryggð er einfaldlega sú að fyrir felst heimili er það hagstæðari kostur. Það að stór hluti heimila standist ekki greiðslumat fyrir óverðtryggð lán en standist þau fyrir verðtryggð lán eins og Aðalsteinn segir réttilega sýnir einmitt fram á það. Fyrir mörg heimil mun það einfaldlega leiða til mun meiri skuldasöfnunar í skammtímalánum sem eru mun dýrari en húsnæðislán að taka óverðtryggð lán sem eru með mun hærri greiðslubyrði en verðtryggð lán á fyrri hluta lánstímans. Þau lán þarf síðan að greiða niður þegar greiðslubyrði óverðtryggðu lánanna lækkar á seinni hluta lánstímans. En þegar allt er talið verður óverðtryggða lánið dýrara vegna mun hærri vaxta á óverðtryggðu lánunum. Þar að auki er mun meiri hætta á greiðsluerfiðleikum eða gjaldrþoti heimila við aukna verðbólgu ef tekin eru óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum, sem er hinn valkosturinn, heldur en ef tekin eru verðtryggð lán.

Það væru því hrein skemmdarverk á fjárhag stórs hluta íslenskra heimila að banna verðtryggingu.

Sigurður M Grétarsson, 28.10.2014 kl. 21:33

6 Smámynd: Rúnar Már Bragason

Það er margt til í sem þú segir Sigurður en að ganga í ESB segir ekkert til um að verðtryggingin fari, hún er ekki bönnuð þar þótt allra jafnan sé hún ekki til staðar. Kjarni málsins er samt sá að lág verðbólga er forsenda húsnæðislána til að þau gangi upp fyrir fólk hvort sem þau eru verðtryggð eða ekki.

Rúnar Már Bragason, 29.10.2014 kl. 18:34

7 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Ástæða þess að við notum verðtryggingu á húsnæðislán meðan ríki ESB gera það almennt ekki er sú að ESB ríkin búa við gjaldmiðil sem lánveitendur treysta á að haldi nokkurn vegin verðgildi sínu til lengri tíma og eru því tilbúnir til að lána óverðtryggt með föstum lágum vöxtum til langs tíma í þeim gjalmiðlum. Þó ESB ríkin séu ekki öll með Evru þá eru þau sem ekki nota hana með fastgengissamning við evrópska seðlabankan sem er bakkaður upp af honum.

Þessu er ekki að heilsa með íslensku krónuna. Það væri ekki nokkur maður tilbúin til að treysta því að hún hélid að minnsta kosti helmingi af núverandi verðgildi sínu eftir 10 ár. Þess vegna eru fáir tilbúnir til að lána til langs tíma í íslenskum krónum með föstum lágum vöxtum.

En það er rangt að það forsenda húsnæðislána að verðbólga sé lág. Það er forsenda óverðtryggðra lána. Ef verðlag og laun halda nokkurn vegin í við verðbólguna sem er oftast staðreyndin til lengri tíma þá er lág verðbólga ekki forsenda fyrir því að verðtryggð lán geti gengið upp. Það er þess vegna sem verðtryggingin var tekin upp á óðaverðbólgutímum hér á landi. Óverðtryggðu lánin gengu ekki upp við þær aðstæður.

Sigurður M Grétarsson, 29.10.2014 kl. 21:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband