Hvað á ég að kjósa?

Nú þegar rétt rúmar 3 vikur eru til kosninga þá er erfitt að gera upp hug sinn. Í boði eru samt einir 7 flokkar en ég er engu nær um hvað ég ætti að kjósa.

Ef byrjað væri á stjórnarandstæðu flokkunum þá eru þeir lítt sannfærandi. Vinstri grænir vilja stoppa stóriðju næstu fimm árin og koma lítið með svör um hvað skuli koma í staðinn. Ferðamennska er atvinnugrein en mjög brothætt og getur alveg eins snúist í höndunum á okkur. Það sem helst selst í ferðamannageiranum eru skemmtanir alls konar. Nóg er af skemmtunum á Íslandi en kláminu var hafnað svo hvað er nú í boði? Eiga allir að fara að skoða landið. Það eyðileggur ekki síður landið og kostar mikla peninga til að umgengnin um svæðin sé viðunandi. Til dæmis er ekki langt síðan að kvarað var yfir umgengni við Geysissvæðið. Nei ég hafna Vinstri grænum þar sem engin almennileg svör eru til staðar.

Frjálslyndi flokkurinn er fastur í kvótaumræðunni og hefur lítið orðið ágengt síðustu  8 ár um þau mál. Sífellt er umræðan um að auka kvótann og lítið um lausnir sem gætu bætt ástandið fyrir byggðirnar í landinu. Síðan er þetta eini flokkurinn sem talar um innflytjendur og þeirra mál. Kemur mér fyrir sjónir sem gamaldags flokkur sem hefur lítið fram að færa. Nei þennan flokk kýs ég ekki.

Samfylkingin er best líst sem glundroði. Kosningin um álver í Hafnafirði var ekkert annað en glundroði sem engu skilaði. Flokkurinn hefur ósannfærandi stefnu sem einkennist mikið af tækifærismennsku og útkomu úr skoðana könnunum. Flokkurinn virðist líka í andstöðu við sjálfan sig er hann segir jafnrétti fyrir alla en allt virðist snúast um formanninn sem er dýrkaður líkt og engir aðrir valkostir séu í boði. Hvers konar jafnrétti er það?  Hjá flokknum virðist ganga ákveðin ritstefna í kringum formanninn og leppana hennar. Nei takk þetta er ekki minn flokkur.

Íslandshreyfingin stofnast í kringum umhverfismál og tekur svipaða afstöðu og Vinstri grænir þar en komu síðan óvænt með Evrópusambandsaðild sem kost. Því miður þá get ég ekki hugsað mér að kjósa þann sem er í fyrsta sæti í mínu kjördæmi þannig að nei takk á þennan flokk.

Sérflokkur um aldraða er skrýtið mál og til þess fallið að lenda í þröng. Nei takk.

Framsóknarflokkurinn kemur sinni stefnuskrá vel frá sér en hún höfðar bara ekki til mín. Frambjóðendur eru oft lítt reyndir og koma ekki sannfærandi fram. Nei takk.

Sjálfstæðisflokkurinn er þá bara eftir og hann setur sig svolítið á háan stall. Formaðurinn er vinsæll og kemur vel fyrir. Hins vegar er ég ekkert hrifinn af frambjóðendum í mínu kjördæmi og því hafna ég honum líka. Nei takk.

Eftir stendur enginn flokkur og hvað á ég þá að kjósa? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband