13.9.2024 | 11:15
Hafa norðmenn samþykkt bókun 35 við EES samninginn?
Nú fer utanríkisráðherra aftur fram með bókun 35 að það sé svo nauðsynlegt að ná henni í gegn. Björn Bjarnason er helsti styrktaraðili hennar í ritheiminum og vill meina að þetta snúist um rétt Íslendinga í Evrópu varðandi samninginn. Með 3. gr í samningnum er ekki nógu afgerandi sett fram hvaða reglur gilda og því hafi íslenskir dómstólar sett íslensk lög framar þegar upp hafa komið vafaatriðið.
Fann grein á netinu síðan 2022 þar sem sami málatilbúningi er haldið uppi og segja má að Björn Bjarnason sé að nota þá grein sem leiðarljós. Þar er líka verið að amast yfir að Íslendingar samþykki ekki þegjandi og hljóðalaust allt sem kemur frá ESB varðandi EES samninginn. Ein rökin varðandi sama rétt er að Spánverji eigi að njóta sama rétta og Hollendingur stofni hann fyrirtæki í Hollandi. Bæði löndin eru í ESB svo að þessi rök eru ansi þunn hvað varðar EES samninginn.
Ekki er ég lagalærður en sé samt ekki enn hvers vegna þurfum bókun 35 nema vegna þess að eftirlitsstofnun skammaði þjóðina fyrir að setja sín lög framar.
Að lokum er ósvöruðu spurningunni: Hafa norðmenn samþykkt bókun 35 við EES samninginn?
Athugasemdir
Það er líka ósvöruð spurning: Vilt þú að EES samningnum sé fylgt eða ekki? Það er miklum vandkvæðum bundið að gera slíka samninga og ákveða svo að ætla ekki að fylgja þeim. Stundum getur þú kannski réttlætt það fyrir sjálfum þér en stundum ekki.
Ég get haft samúð með því að vilja ekki virða gerðan samning af málefnalegum ástæðum. En þá myndi ég líka vilja vita hvaða ástæður það eru. Eru það í raun málefnalegar ástæður eða bara geðþótti þinn á hverjum tímapuntki sem mótar afstöðuna?
Guðmundur Ásgeirsson, 14.9.2024 kl. 01:52
Blekkingaleikur íslenskra ráðamanna á sér sífellt stað síðan þessi samningur var samþykktur. Erfiðum hlutum er ýtt til hliðar og vonast að það þurfi ekki að takast á við þá. Vissulega eru þeir mest að blekkja sjálfa sig.
Það er alveg ljóst að þessi bókun getur mögulega stangast á við stjórnarskrána. Ef sú staða kemur upp hvað er þá til ráða?
Besta staðan er að endursemja um þetta og hafa þetta á hreinu en ekki þröngva svona vitleysu í gegn.
Rúnar Már Bragason, 14.9.2024 kl. 11:19
Bókunin sem slík hefur ekkert lagagildi á Íslandi og er því útilokað að hún geti stangast á við stjórnarskránna. Það sem þú ert væntanlega að vísa til er frumvarpið þar sem er lagt til að í íslensk lög nr. 2/1993 verði sett forgangsregla sambærileg þeirri sem bókunin kveður á um og felur í sér að íslensk lög sem byggjast á EES reglum skuli ganga framar öðrum ósamrýmanlegum íslenskum lögum ef þau rekast á.
Ég á afar erfitt með að sjá að íslensk lög sem kveða á um forgang tiltekinna íslenskra laga framar öðrum íslenskum lögum geti stangast á við stjórnarskránna. Slíkar reglur hafa verið víða í séríslenskri löggjöf sem er alls ótengd EES og og á sér mun lengri sögu en EES samningurinn, en aldrei hafa neinar slíkar reglur verið taldar stangast á við stjórnarskrá.
Alþingi fer með löggjafarvald á Íslandi og hefur sem slíkt fullt vald til þess að ákveða hvaða íslensku lög gildi og hver þeirra gangi framar öðrum íslenskum lögum. Það er ekki andstætt stjórnarskránni heldur leiðir beinlínis af 2. grein hennar.
Guðmundur Ásgeirsson, 14.9.2024 kl. 16:34
Ef þetta fær lagagildi þá ertu að framselja valdið frá Íslandi (mögulega), það stangast á við stjórnarskrá. Hefur ekkert að gera með íslensk lög sem sett eru framar öðrum íslenskum lögum. Hnífurinn í kúnni stendur varðandi framsal valds og þú segir ekkert um það.
Það er mjög oft sem lög stangast á því miður enda kannski vonlaust að búa til lög sem ekki stangast á við önnur. Hins vegar geta lög ekki leyft sér að framselja vald ef það stangast á við stjórnarskrá og ef þessi bókun verður að lögum þá stangast þetta á við framsal valds. Það væri gaman af fá svar við því hvernig á að bregðast við ef þessi staða kemur upp. Lögin gera ekki ráð fyrir því.
Rúnar Már Bragason, 14.9.2024 kl. 22:55
Frumvarpið sem kennt er við bókun 35 felur ekki í sér neina tillögu um framsal löggjafarvalds. Þess vegna sagði ég ekkert um það vegna þess að ég var að fjalla um efni frumvarpsins en ekki eitthvað sem er alls ekki hluti af efni þess.
Frumvarpið felur eingöngu í sér tillögu um að þegar Alþingi hefur samþykkt íslensk lög sem innleiða EES reglur þá skuli þau lög gilda. Það getur ekki stangast á við stjórnarskrá að lög frá Alþingi gildi heldur leiðir það beinlínis af henni.
Ég held að þú sért að falla í sömu gryfju og margir gera í þessari umræðu um þessar mundir. Sem er að rugla saman annars vegar innleiðingarskyldunni í 7. gr. EES samningsins frá 1993 og hins vegar forgangsreglunni sem leiðir af bókun 35.
Vilji menn ræða skoðanir sínar á innleiðingarskyldunni er það sjálfsagt mál en þá er líka best að gera það á grundvelli réttra staðreynda. Það þjónar engum góðum tilgangi að byggja slíka umræðu á misskilningi.
Guðmundur Ásgeirsson, 22.9.2024 kl. 21:42
Þetta er ekki gryfja þegar möguleikinn er fyrir hendi að framselja valdið. Ef samþykkt eru lög þar sem stofnun í Evrópu á að hafa yfirumsjón þá ertu að framselja vald. Þessi bókun býður upp á þann möguleika og það stangast á við stjórnarskrá. Alþingismenn hafa ekki sýnt það mikinn dug að verjast slíkum yfirgangi.
Í mínum huga, og fleiri sem eiga að vera falla í gryfju, þá óttumst við þennan möguleika.
Rúnar Már Bragason, 22.9.2024 kl. 21:57
Það sem þú ert að vísa er ekki framsal löggjafarvalds heldur framkvæmdavalds. Það hefur nokkrum sinnum verið gert áður og þurfti enga bókun 35 til þess enda leiðir hún ekki sjálfkrafa til slíks heldur þarf alltaf atbeina Alþingis til að framselja framkvæmdavald með lögum. Ég get svo sannarlega verið sammála þér um að það sé ekki í góðu samræmi við 2. gr. stjórnarskrárinnar að framselja framkvæmdavald til erlendra stofnana. En þá við erum við líka að tala um allt annað en löggjafarvaldið og sem hefur ekkert með bókun 35 að gera.
P.S. Til að svara spurningunni í fyrirsögn pistilsins: Noregur samþykkti bókun 35 eins og Ísland þegar EES samningurinn var undirritaður á sínum tíma. Ólíkt Íslandi innleiddi Noregur líka forgangsreglu í samræmi við bókunina í 2. gr. norsku EES laganna. Það gerði Ísland ekki heldur bjó til lögskýringarreglu sem átti að komast eitthvað í áttina að því að ná sama markmiði, en hefur margítrekað verið staðfest af Hæstarétti Íslands að náði því ekki fyllilega. Ákvæði frumvarpins sem nú er til umræðu er ætlað að bæta úr þessu og það tekur mið af norska ákvæðinu. Þetta kemur allt saman fram í greinargerð með frumvarpinu sem er mjög ítarleg og skilmerkileg. Ég hvet alla sem hafa áhuga á málinu til að lesa þá greinargerð vel og vandlega áður en þeir draga ályktanir um efni frumvarpsins af "einhverju sem einhver sagði á netinu".
Guðmundur Ásgeirsson, 23.9.2024 kl. 00:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.