14.8.2007 | 01:59
Fiskur og Fiskidagurinn mikli
Þegar við í fjölskyldunni heimsóttum Dalvík heim um liðna helgi þá var fiskur á borðum og fiskur í umræðunni. Fiskidagurinn mikli er velheppnuð fjölskylduskemmtun sem er farinn að teygja anga sína í annan dag með fiskisúpu kvöldið áður. Umgjörðin öll og umgengni gesta er alveg til fyrirmyndar og lítið út á þetta að setja nema að mætti skipuleggja svæðið aðeins betur.
Umræðan um fiskinn var lika til staðar og ekki síst rannsóknir Fiskistofu. Hef sjálfur ekki séð neinar tölur eða úrlausnir úr rannsóknum þeirra en talað er um að Fiskistofa breyti gögnum um stofnstærð aftur í tímann. Gefin er upp ákveðinn fjöldi fyrir t.d. 2006. Næsta ár er farið aftur og þá breytist talan fyrir 2006. Skrýtin útreikningur ef satt reynist og ekki það sem maður hefur lært um vísindarannsóknir. Alltaf skal miðað við staðreyndir og ályktanir dregnar, eftir það eru gögnin óbreytanleg en gera má aðra rannsókn. Kannski Fiskistofa telji sig vera gera aðra rannsókn en afhverju eru þá tölur fyrri ára ekki óbreytanlegar?
Hitt sem líka var bent á er að ekki sé línulegt fall í stofnstærðum, þær rokki upp og niður. Ef engin tilhneiging er að sá hvort fjöldinn fari upp eða niður þá vantar eitthvað upp á. Enda bent á samhliða því að Fiskistofa fari alltaf á sama stað að athuga. Ekki sé gert ráð fyrir að fiskurinn elti fæðið eða breytilegt hitastig sjávar. Get varla ímyndað mér að fiskurinn sé svo staðbundinn í sjónum að hann komi alltaf á sömu staðina þe. svo nákvæmt að ekki megi skeika kannski nokkrum kílómetrum. Hvað með strauma hafsins? Hvað með að fiskurinn elti fæðið? Hvað með hitastig sjávar, hefur það áhrif á gegnd fisksins? Hvað með framþróun í veiðafærum?
Niðurstaðan virðist vera að það séu allt of margir lausir endar sem þurfi að skoða betur og hanna módelið upp á nýtt. Aðferðir Fiskistofu er samt ekki nema hluti af vanda minnkandi kvóta hjá sjávarbyggðum. Hluti vandans liggur í of miklum veiddum fiski. Hluti vandans er skortur á fjölbreytni í störfum á landsbyggðinni. Hluti vandans er að alltof dýrt er að flytja fiskinn svona fram og til baka.
Lausninar liggja ekki á glámbekk en gæti það verið lausn að fiskur sem er seldur á fiskmarkaði sé ekki flokkaður eftir stærð heldur seldur einungis í magni óháð stærð fiskanna. Ljóst er þó að við íslendingar þurfa að nota mun meiri tíma í umræður um málefnið á öllum stigum og leita lausna í stað þess að benda hver á annan. Þangað til getum við hin farið á Fiskidaginn mikla og skemmt okkur konunglega í vinalegu umhverfi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.