Leiðtogi óskast

Nú þegar sól hækkar á lofti og skil fara að myndast eftir bankahrunið þá er skýrasta krafan - fá leiðtoga fram á sjónarsviðið.

Staðreyndin er sú að meðal þingmanna er enginn leiðtogi sem getur þjappað fólki saman og komið þjóðinni í nýjan farveg. Ef byrjað er á formönnum þingflokkanna þá er Geir alltof tvístígandi og sem dæmi um leiðtogaleysi þá sagði hann við orðum Wades "... ég heyri ekki neitt nýtt." Eina sem fólk heyrði var "Ég heyri ekki". Þetta er bara lítið dæmi en þau eru ansi mörg um Geir. Vissulega góður fylgjandi en alls enginn leiðtogi. 

Ingibjörg er lítið skárri. Segir gott einn daginn en algera þvælu hinn. Sem dæmi þá sagðist hún helst vilja taka þátt í mótmælum en gæti það ekki vegna stöðu sinnar. Leiðtogi talar einfaldlega ekki svona, annaðhvort er hann á staðnum og stendur við orð sín eða er einfaldlega ekki leiðtogi. Skipti hann um skoðun þá skýrir hann mál sitt. Það er ekki hægt að vera báðum meginn við borðið. Auk þess myndi leiðtogi ekki koma með svona tvískilnung í fjölmiðla. Leiðtogi er hreinn og beinn, nær til fólks, róar það, veitir innblástur og tekur af skarið. Ekkert af þessu hefur Ingibjörg eða Geir sýnt.

Stjórnarandstæðan er alls ekki skárri og í raun mun fjær að vera leiðtogar. Framsókn hefur ekki gert annað en að bíta hvern annan í skottið. Koma svo fram með einn óreyndan sem svar við kröfu fólksins um breytingar. Kannski það virki þar sem Sigmundur hefur unnið í sjónvarpi (vinnur greinilega með honum) en það sem ég hef heyrt af honum fellur ekki inn í þá mynd sem ég hef af leiðtoga. Best að gefa honum tækifæri og því verður betur svarað á næstu mánuðum.

Steingrímur J. er alltaf sami fýsibelgurinn og slær um sig með frösum og háði. Segir fátt um hvað eigi að gera en gagnrýnir allt. Leiðtogi þarf að geta komið með lausnirnar og þora að standa við þær. Leiðtoginn þarf líka að koma með þær áður er framkvæmt og benda á hvers vegna. Þetta fæ ég aldrei heyrt né séð hjá Steingrími J. Allt gengur út að gagnrýna og kvarta. Niðurrifsstarfssemi í stað uppbyggingar.

Frjálslyndi flokkurinn er úti að aka og hafa greinilega lítið að segja þessa dagana. Ef þeir hafa eitthvað að segja þá veit enginn hvað þeir eiga við.

Aðrir þingmenn segja fátt og kvarta yfir að sitja á hliðarlínunni??? Hvers konar leiðtogar eru það sem geta ekki stigið fram og tekið þátt í atinu í stað þess að kvarta bara?

Síðustu rúmu hundrað daga hefur enginn komið fram sem sýnir fram á leiðtogann sem getur sameinað fólk og fylgt eitthverri stefnu út úr vandanum. Allt gengur út á að finna sökudólginn, hálshöggva hann og vera nógu undirgefinn. Það er nefnilega athyglisvert hversu undirgefnir Íslendingar eiga að vera. Um tíma var vart talað um annað en að orðspor okkar væri svo slæmt í útlöndum. Sá sem er sjálfstæður og með góða sjálfsmynd myndi halda sinni stefnu og ekki hafa of miklar áhyggjur af þessu orðspori. Vissulega brotnaði sjálfsmynd okkar en við ættum samt að hafa nægt sjálfstraust til að halda okkar stefnu án þess að vera of upptekin af því.

Það má segja útrásavíkingunum til hróss að þeir komu okkur út úr þessum fasa um samanburð, undirgefni og lélega sjálfsmynd. Þeir þorðu en fóru alltof langt (gersamlega alltof langt) en gaman væri að skoða hvernig sjálfsmynd þjóðarinnar breyttist á þessum tíma úr samanburði við önnur lönd og undirgefni yfir í gott sjálfstraust. Til að mynda hvernig fjallað var um þessi efni í fjölmiðlum.

Nýtt Ísland á einmitt að byggja upp á góðu sjálfstrausti. Land sem þorir að fara sína leið og fylgja henni. Ekki of upptekið af samanburði eða stærð landsins. Vera ánægð með það sem við höfum og möguleikum okkar að byggja upp gott, öflugt og sterkt samfélag með góða sjálfsmynd.

Spurningin er ekki hver vill taka það að sér heldur 

HVER GETUR TEKIÐ ÞAÐ AÐ SÉR?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Það er slæmt að hafa þjóðina leiðtogalausa á þessum óvissu tímum.

Offari, 21.1.2009 kl. 01:41

2 identicon

Ögmundur væri fínn í leiðtogastarfið, ef öll hans frumvörp hefðu verið samþykkt á Alþingi hefði Ísland aldrei brunnið eins og nú undir sjálfstæðismönnum.

Hrólfur (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 01:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband