12.1.2007 | 07:07
Er kerlingin í Vesturbænum dauð?
Íslenskt samfélag hefur farið í gegnum miklar breytingar á undanförnum árum og eitt af aðaleinkennum gamla samfélagsins virðist vera horfið. Kerlingin í Vesturbænum var samnefnari fyrir siðvendi samfélagsins og ekki var hægt að gera hvað sem er án þess að hún hæfi upp raust sína.
Nú ber svo við að hún virðist hætt að heyrast sem ber glögglega vitni um breytt samfélagsmynstur. Fyrir nokkrum árum mátti ekki sjást sköpun mannsins í sjónvarpi án þess að kerlingin í Vesturbænum gerði alla vitlausa. Á nýársdag brá hins vegar við að sýnd var myndin Strákarnir sem fjallaði um samkynhneigð í íþróttum. Sýnd voru atriði sem kerlingin í Vesturbænum hefði farið hamförum hefði hún verið á lífi. Í staðinn heyrist ekki neitt, ekki múkk.
Er þetta vitni um breytt siðferði þjóðarinnar sem lítur öðrum augum á klám í dag en áður? Eitt er þó ljóst að siðferði þjóðarinnar hefur tekið breytingum og meira leyfist en áður. Líklegast er þetta í takt við breytingar í löndunum í kringum okkur sem hafa tekið svipaða afstöðu til kláms. Vera má að okkur vanti siðferðispostul eftir að kerlingin í Vesturbænum hætti að láta í sér heyra en spurningin er hvort við þurfum þess?
Er ekki í lagi að við stefnum áfram án allrar gagnrýni og siðvendi. Er þetta nokkuð hættulegt? Ekki hræðist ég það en gaman væri ef einhver samnefnari í siðvendi væri til, bara til að minna okkur á að ekki er allt leyfilegt. Hver býður sig fram?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.