29.8.2007 | 22:48
Skipulagt kaos sveitarfélaganna
Þegar hugsað er til skipulagsmála á höfuðborgasvæðinu kemur fljótlega upp hugsunin um kaos. Ekki það að allt sé illa skipulagt og allt sé í kaos. Frekar á þeim grunni að eitthvað er ákveðið og það virðist vera hending að almenningur fái að vita af því sem verið er að vinna að.
Nú stendur til að mynda mikill styr um skipulag í Kópavogi og enduruppbygging Austurstrætis er í óvissu svo dæmi séu nefnd. Málið er að almenningur á lítinn möguleika að koma að málefnum þessara skipulagsmála fyrr en á lokastigum og fær ekki að gera athugasemdir fyrr en skipulag liggur fyrir.
Í mínum huga á almenningur að eiga kost á því að sjá skipulag á frumstigi, sérstaklega þeir sem búa í næsta nágrenni. Nú er t.d. verið að vinna skipulag upp á Vatnsendahæð rétt hjá þar sem ég byggi mitt hús. Þegar ég fékk úthlutað lóðinni vissi ég vel að þarna yrði byggt en svo vildi til að ég fékk að sjá tillögu að skipulagi þar og sé strax að skóli hverfisins er settur á rangan stað. Ef ég vildi gera athugasemdir við þessa tillögu þá verð ég að bíða þangað til allri vinnslu er lokið og fylgjast með auglýstum tíma til að gera athugasemdir.
Þetta finnst mér ekki rétt leið. Í dag er frekar auðvelt að dreifa upplýsingum á vefsíðum, með dreifipósti og fleiru. Mér finnst því að það ætti að breyta kerfinu og leyfa almenningi að koma fyrr að skipulagi svæðis sér í lagi þeir sem búa nærri. Hefði ég t.d. teiknað hús sem náði út fyrir byggingarreit þá hefði ég þurft að kynna það nágrönnum. Af hverju þurfa bæjarfélög ekki að fara í gengum sama ferli?
Það má frekar segja að skipulagsferlið sé hið sanna kaos í þessu öllu saman. Ef sveitafélög myndu bæta ferlið við skipulag hverfa þá yrðu færri árekstrar sem myndu leiða til betri sátta um þessi mál. Til að mynda með því að leyfa almenningi að koma fyrr að skipulagi eða gera ferlið aðgengilegra á einhvern hátt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.