Forstjórablogg

Hef oft velt fyrir mér hvernig forstjórablogg myndi líta út en væri eitthver möguleiki á að það myndi hljóma svona?

Vaknaði snemma í morgun þar sem markaðurinn var eitthvað að stríða mér í gær. Hlutabréfin lækkuðu svo ég verð að vakna fyrr til að fara vel yfir stöðuna og upplýsa eigendurna um stöðuna. Ekki skemmtiverk en samt nauðsynlegt vegna hluti af vinnu minni. Undanfarin ár hafa verið svo skemmtileg, alltaf á uppleið og bara vinaleg spjall við eigendur. Í dag er önnur saga og ég þarf að svitna fyrir launum mínum sem á annað borð eru hvort eð er 10x hærri en flestra annarra í fyrirtækinu. Verð að geta réttlætt það.

Hef ég unnið fyrir því? Alveg örugglega. Ég vinn stefnumótun og sé um að koma henni í framkvæmd. Ég mæti snemma og vinn lengi (ekki taka með nýtni tímans). Þarf að bera mikla ábyrgð og fæ einungis það sem mér ber.

Hvernig starfar hugurinn samt í raun? Fyrir utan þessi leiðinda skylduverk þá snýst þetta mikið um egóið. Eftir að hafa upplýst eigendur um stöðuna (sem tók allt of langan tíma) þá tók alvaran við - að velja sér nýjan bíl. Það þarf að skipta um bíl ekki minna en tveggja ára fresti en þar sem svo margar nýjungar hafa átt sér stað þá ætla ég að fá mér nýjan um áramótin. Var að hugsa um Range Rover enda margir topparnir á slíkum eðalbílum en ákvað til gamans að skoða líka Benz og BMW.  Þetta er ansi erfitt mál og krefst mikillar yfirlegu. Ég hreinlega svitna við tilhugsunina. Gaman verður það samt því ég má ekki vera minni maður en svo að eiga minni bíl en hinir topparnir. Þetta er þrautaganga en hverrar mínútu virði.

Fór út að borða í hádeginu og auðvitað var það kallað viðskiptafundur. Var í rauninni ekkert annað en yfirhalning til að fá góðan mat. Sátum bara og spjölluðum um ekki neitt og allra síst um viðskipti. Þekkjumst allir hvort eð það vel að fundir til að kynnast skipta ekki máli lengur, en alltaf gaman að vera í góðra vina hópi. Verst að þetta eru samkeppnisaðilar sem allra jafnan ætti ekki að hafa samskipti við.

Í stað viðskipta þá grobbum við okkur af öllu ríkidæminu og hvar við ætlum að eyða sumarfríinu, hvernig við getum grobbað okkur enn meira af ríkidæminu og plottað það inn í blöðin. Við verðum líka að koma vel út og án þess að sýnast eitthverjir hrokagikkir heldur vænir kallar sem skila auði sínum til baka til samfélagsins (hahahhahahahhahahahaha - hverjum dettur slík vitleysa í hug). Ef fólk vissi bara hversu erfitt þetta er að vera svona ríkur. Allir peningarnir fara í að réttlæta þetta og halda úti lífsstílnum. Veitir ekkert af þessum launum til þess. Legg mig allan fram við að skipta um bíl á hverju ári, fara í fatabúð og láta velja fyrir mig föt. Kaupa alltof dýran mat bara af því að ég á efni á því. Lifi í alltof stóru húsi til að sýnast meiri. Geri ekki handtak heima hjá mér nema að skaffa peninga til að láta aðra gera allt saman (ef konan gerir það ekki). Þekki varla börnin mín en umfram allt er ég æðislegur. 

Ég er í toppstöðu, með topplaun. Læt alla halda að ég vinni svo mikið og mest af tímanum fer í að réttlæta það að hækka launin mín meira heldur en annarra starfsmanna fyrirtækisins. Eftir allt saman þá er ég toppurinn.  Ég á skilið að fá það besta af öllu. Ég er toppurinn á tilverunni!

Svari hver fyrir sig en ég held að þetta yrði seint raunin að forstjórar bloggi svona. 


Leitin að mannauðnum og fiskveiðistjórnun eiga margt sameiginlegt

Mörg fyrirtæki í dag vilja fá það mesta út úr starfsfólki sínu með því að nýta mannauðinn. Svo virðist sem að til sé nóg af aðferðum og skoðunum um hvernig best sé að þessu staðið. Fiskveiðistjórnunarkerfið vill koma því sama til leiðar að því leyti að hámarka nýtingu þess sem til er.

Manneskjur eru (sem betur fer) ekki allar eins. Við mótumst út frá mismunandi hlutum og getum nýtt eiginleika okkar við mismunandi aðstæður. Fiskurinn í sjónum er alveg eins að þeir eru ekki eins, eru feitir, mjóir, stórir, litlir, nýtanlegir og ónýtanlegir. Til að finna það besta út úr þessu verður að leita að því og vera vakandi fyrir því hvar það finnst.

Svo virðist sem að bæði í fiskveiðistjórnunarkerfinu og í leitinni að mannauðnum er farið sömu leið. Fundin er hagnýt leið sem hefur skilað árangri og segir eitthvað en á sama tíma haldið að sú leið þurfi ekki að breytast. Að finna mannauð hjá manneskju gerist ekki eftir formúlu frekar en að finna hvernig megi hámarka fiskafla úr sjó. Ekkert er óbreytanleg og mismunandi aðstæður kalla á mismunandi aðferðir. Góðir sölumenn þekkja þetta, þú talar svona við þennan og þannig við hinn. Þess vegna verður að aðlaga sig að hverjum og einum, aðlaga sig að aðstæðum hverju sinni.

Að því sögðu má sjá margt sammerkt með leitinni að mannauðnum og ráðningu í störf og fiskstjórnunarkerfinu. Bæði hafa komið upp kerfi sem er talið óhagganlegt og gefi bestu niðurstöðuna. Sjálfsgagnrýni er lítil enda keppikefli að þjónusta þann sem borgar. Mannauðurinn finnst með æskudýrkun og fiskurinn með kerfi sem var fundið upp fyrir aldafjórðung (og ekkert breyst síðan).

Satt að segja treysti ég frekar afgreiðslumanni í byggingarvöruverslun sem veit meira en hvar hlutirnir eru geymdir fyrir utan það að hann gefur meira en að rétta mér hlutinn. Það er mjög áberandi hversu illa fólk er þjálfað í störf og í raun stórfurðulegt að andlit fyrirtækja eru oft ótrúlega illa þjálfuð og dónaleg. Að slík fyrirtæki skuli stækka ætti samkvæmt öllum fræðibókum ekki að vera hægt. Það er nefnilega þannig að fræðibækurnar segja ekki alla söguna og fleiri þættir skipta máli fyrir heildarmyndina.

Það þarf að hlusta og reyna skilja hvað er besta leiðin en ekki ákveða hana fyrirfram. Lausnin felst í að þróa og með því ná hinu besta fram.


Rödd skynseminnar

Ég er tilfinningavera en líka skynsemisvera. Hvort kemur á undan? Satt að segja þá eru fyrstu viðbrögð (sjáanleg og ekki sjáanleg) yfirleitt byggðar á tilfinningum en með því að telja upp á 10 þá kemur skynsemin. Er það endilega alltaf rétt? Í nútímasamfélagi er mikill hraði og krafist skjótra viðbragða en verður það ekki einmitt a kostnað skynseminnar. Við bregðumst út frá tilfinningum og ýtum hlutum úr vör án skynseminnar. Sagt er að við mannaráðningar, kaup á hlutum og jafnvel mjög stórar og afdrífaríkar ákvarðanir sé byggt á tilfinningum. Getur það verið satt?

Það er líka skemmtilegt að hugsa um þetta út frá svokölluðum kynslóðum. Talað er um X-kynslóð, krútt kynslóð, hippa kynslóð, baby boom kynslóð o.s.frv. Það sem þessi nöfn eiga sameiginlegt er að aldrei er talað um skynsömu kynslóðina heldur byggir kynslóðin á tilfinningu gagnvart eitthverju sem ekki er endilega skynsamlegt t.d. að vera krúttlegur. 

Er ekki kominn tími til að rödd tilfinninga fái að heyrast almennilega eins og t.d. í stjórnun fiskveiða. Þar er ákvörðun tekin út frá skynsemissjónarmiði en allar tilfinningar látnar um lönd og leið. Eins og þær skipti engu máli og hafi ekkert vægi í umræðuna. Margt af ákvörðunum sem varða almannaheill er tekið í nafni skynseminnar en hvernig er með þá sem tóku ákvörðunina? Var það gert af skynsemi eða með tilfinningum? 

Óttumst ekki tilfinningar okkar, þær hafa eitthvað að segja. 


Aðeins í dag (og alla daga) - #10 Að vera óttalaus

Aðeins í dag ætla ég að vera óttalaus; einkum ætla ég ekki að óttast að vera ánægður, að njóta þess sem fagurt er, að elska og trúa því, að þeir unni mér, sem ég elska.

Það er alveg með ólíkindum hvað við getum stjórnast af ótta. Það er eðlilegt að vera með ótta en að láta hann stjórna lífi okkar er ekki eðlilegt. Við getum gert svo miklu meira ef við stjórnum óttanum. Það er nefnilega ekkert að því að vera ánægður, njóta lífsins, að elska og hafa trú á fólki. Við gerum samt ekki nóg af því þar sem við óttumst. Hvernig væri að prófa að fara í gegnum einn dag og segja við sjálfan sig: "Ég óttast eigi" og takast þannig á við öll þau verkefni sem bíða okkar. Sjáðu hvort það breyti ekki eitthverju.


Aðeins í dag (og alla daga) - #9 Að eiga tíma í einveru og hvíld

Aðeins í dag ætla ég að eyða hálftíma í einveru og hvíld. Á þessum hálftíma ætla ég stundum að hugsa til guðs, til að öðlast meiri innsýn í líf mitt.

Það er ótrúlega endurnærandi að hafa smá tíma út af fyrir sig. Róa sig og gera eitthvað gott fyrir sig. Winston Churchill var þekktur fyrir að vinna 16 tíma á dag og það gerði hann með því að taka tvo 20 mínútna dúra á dag. Hann vissi um mikilvægi þess að endurnærast og viðhalda fullri orku en það er ekki hægt nema að hvílast á eitthvern hátt. Best er að gera það einn og í algerum friði. 

Hér er gott blogg um mikilvægi þess að eiga sinn tíma í kyrrðarstund

Njótum stundarinnar! 


Aðeins í dag (og alla daga) - #8 Að búa til dagskrá

Aðeins í dag ætla ég að búa til dagskrá. Ég ætla að skrifa það upp, sem ég býst við að gera á hverri klukkustund. Ég skrifa það upp. Það mun brynja mig gegn tveimur plágum: hroðvirkni og úrræðaleysi.

Það væri gaman að vita hversu margir skrifa niður dagskrá fyrir næsta dag. Samkvæmt könnunum þá gera ekki nema um 5% það að jafnaði. Ég er þá ekki að tala bara um í vinnunni heldur fyrir allan daginn. Ég á heldur ekki við um að vera ofskipulagður þar sem ekki má bregða út af dagskrá heldur það sem til stendur að gera. Í tímastjórnunarfræðum má sjá að ekki er mælt með að skipuleggja daginn meira en 60% svo að nóg rými sé til fyrir óvænta atburði.

Þetta hjálpar líka við einbeitinguna og gerir mann öruggari dags daglega. Þú veist hvað þú vilt og hvers þú væntir af þér í dag. Vaknar þú á morgnanna og er ánægð(ur) með daginn í gær? Ferð þú að sofa og ert ánægð(ur) með dagsverkið? Væri ekki nær að stefna að því og þakka fyrir hvern vel heppnaðan dag, og hlakka til þess næsta.


Aðeins í dag (og alla daga) - #7 Að lifa fyrir daginn í dag

Aðeins í dag ætla ég að lifa þennan dag og reyna ekki að leysa öll vandamál mín í einu. Ég get gert margt á tólf klukkustundum, sem mig óaði við að gera daglega alla ævi.

Þetta er mjög þekkt að lifa fyrir daginn í dag og að taka einn dag í einu. Þetta er líka alveg ótrúlega öflugt því þetta minnkar kvíða með því að hugsa um stóru málin í litlum einingum. Einbeiting eykst líka við þetta og við komum meira í verk en með því að vera of upptekin af stóru myndinni. 

Svo njótum dagsins með öllu því sem hann hefur upp á að bjóða. 


Aðeins í dag (og alla daga) - #6 Að þjálfa huga minn

Aðeins í dag ætla ég að þjálfa huga minn á þrennan hátt. Ég ætla að gera einhverjum greiða - án þess að ætlast nokkurs á móti, og ég ætla að gera a.m.k. tvennt, sem mér er þvert um geð, aðeins í þjálfunarskyni.

Já þetta er líklega mjög einfalt og lítið mál að framkvæma. Hins vegar er flestum illa við að gera hluti sem þeim er þvert um geð svo ætla mætti að þetta sé erfiðara en það virðist. Í Hávamálum er talað um mátt þess að gefa og hversu mikið það gerir fyrir einstaklinginn. Mæli hiklaust með að framkvæma þetta og sjá hversu mikið það breytir fyrir þig. 


Aðeins í dag (og alla daga) - #5 Að vera skemmtilegur

Aðeins í dag ætla ég að vera skemmtilegur. Ég ætla að vera kurteis, hrósmildur, gagnrýna engan, og hvorki finna að neinu né vanda um við neinn.

Það er varla svo erfitt að vera skemmtilegur. Við erum öll svo skemmtileg nema okkur finnst fólk mis skemmtilegt. Þetta atriði er reyndar alveg ótrúlega lítið gert af. Kurteisi er svona lala eins og við finnum vel í umferðinni. Hrósmildi er mistöm hjá fólki. Við erum ansi gjörn á að gagnrýna alla skapaða hluti og finnum líka að flestum hlutum. Góð gagnrýni felur í sér uppbyggingu en ekki bara aðfinnslur.

Sem dæmi þá ákvað einstaklingur að setja teygju um úlniðinn á sér og smella henni í hvert sinn sem hann kvartaði. Hann gafst upp eftir hálfan dag þar sem teygjan var farin að meiða hann. Annað dæmi var um einstakling sem ákvað að setja perlur í krukku þegar hann kvartaði. Krukkan fylltist mun fyrr en hann hafði gert ráð fyrir. Þessi dæmi sýna að við kvörtum mun meira en við höldum og það er vel hægt að taka á hlutum líðandi stundar án þess að kvarta yfir þeim.

Prófið nú í einn dag að vera bara skemmtileg. 


Aðeins í dag (og alla daga) - #4 Að styrkja hugann

Aðeins í dag ætla ég að styrkja hug minn og lesa eitthvað gagnlegt. Ég ætla ekki að vera andlegur slæpingi, heldur lesa eitthvað, sem krefst fyrirhafnar, hugsunar og einbeitingar.

Já þetta er ótrúlegt. Eins mikið og hægt er að lesa á netinu í dag þá ætti allavega ekki að vera erfitt að finna eitthvað gagnlegt að lesa. Það getur verið nærandi og gagnlegt að lesa skáldsögu en krefst það endilega fyrirhafnar, hugsunar eða einbeitingar. Slíkt efni er erfiðara að finna og best að blanda þessu saman í hæfilegu magni. Þeir sem eiga erfitt með að einbeita sér að lestri efnis sem krefst fyrirhafnar, hugsunar og einbeitingar þá legg ég til að þeir sæki námskeið í Hraðlestrarskólanum og nái þannig betri tökum á lestrinum.

Lesum og lærum alla ævi. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband