Er gagn af lestri bóka?

Það er áleitin spurning hvort eitthvert gagn sé af lestri bóka. Bækur eru mismunandi og fjalla um ýmsa hluti, ævisögur, spennusögur, sjálfshjálp, grínbækur, ástarsögur og fleira. Tilhneiging bókalista er að taka vinsælustu bækurnar og selja enn meira af þeim. Fyrir það líða aðrar bækur sem ekki komast á listann. Ljóðabækur t.d. eiga mjög erfitt uppdráttar.

En er gagn af lestri bóka. Fljótlega sagt er gagn af fræðibókum enda til þess gerðar að fræða okkur. Gallinn er samt til staðar þar sem þær eiga það til að úreltast þannig að gömul fræðibók er ekki beint að fræða okkur alveg rétt. Sjálfshjálparbækur eru líka til þess gerðar að fræða okkur og hjálpa og þannig gera þær gagn. Vandamálið er að þessi hjálp nær oft ekki út fyrir lestur bókarinnar. Grínbækur skemmta okkur og fá okkur til að hlægja og spennusögur fá hjartað til að slá örar. Ástarsögur höfða líka til tilfinninganna en ævisögur segja okkur oft margt og geta hjálpað okkur að skilja heiminn betur. Barnabækur gera örugglega gagn því þær kenna og skemmta og þegar ég les fyrir börnin mín þá er ég viss um að þær gera gagn.

Tilefni þessa pistils er líka svokallaðar E-bækur sem gefnar eru út á netinu og blogg. Sumt af þessu fjallar um það sem er vinsælt og fólk sækist eftir. Spurningin er hversu fróðir einstaklingarnir eru um efnið í raun og veru og hvort það gagnist okkur eitthvað. Sumt gerir það en eins og oft með sjálfshjálparbækur þá er það okkar að koma því lengra en bara við lesturinn.

Niðurstaðan er að bókin er gagnleg og mun hafa hlutverk áfram um ókomna tíð og netið mun ekki yfirtaka það hlutverk. 


Á bjargi byggi ég hús

Ekki það að ég byggi mitt hús á sandi en klöppin var reyndar of neðalega svo það þurfti púða (kodda eftir því sem konan segir).

Þessi skrif er þó ekki um það. Heldur hinn nýja meirihluta þarna hinu megin við lækinn sem virðist byggjast ansi mikið á sandi. Vaðið að stað um fyrirheit að gera eitthvað og vinna saman án þess að ræða, þó ekki nema, oggulítið saman. Enda koma nú í ljós andstæðurnar sem flokkarnir standa frammi fyrir og hvort stóru orðin þurfa að fara ofan í skúffu bara til þess að láta þetta ganga upp.

Já það á að byggja hús á bjargi svo rigningin skoli því ekki í burtu. Er þessi meirihluti byggður á bjargi? Ekki að mínu áliti en hvað finnst þér? 


Sigrar lýðræðið?

Í ljósi atburða í vikunni hlýtur sú spurning að vakna hvort lýðræðið sigarar. Uppi eru alls konar ásakanir um bitlinga og skrýtin vinnubrögð en engin tekinn til ábyrgðar.

Nýji meirihlutinn í Reykjavík, sem telur sig geta hafið störf án þess að hafa neitt að leiðarljósi, talar ekkert um fyrri meint afglöp Björn Inga sem þó var allra manna verstur (ekki síðar en í þessari viku). Sjálfstæðismenn ásaka Björn Inga um óheilindi en virðast varla sjálfir geta staðið heilir frá borði. Dagur er varla svo heill að hann geti tjáð sig án þess að verða málpípa auðmanna. Svanhvít skítur á Sjálfstæðismenn en talar ekkert um hvað skuli gera og hvort ekkert sé skrýtið við nýjan meirihluta. Björn Ingi reynir að hvítþvo sig með upplýsingum um meinta tilraun Sjálfstæðismanna í þreifingum. Margrét Sverris hlær bara og fagnar feitara launaumslagi.

Sem sagt allsherjar skrumskæling á lýðræði og samansafn af framapoturum. Hér er alger skrumskæling á lýðræðinu og skiptir engu máli hvaða flokkur eða borgarstjórnarfulltrúi á í hlut. Alir hafa þeir misnotað aðstöðu sína á einn eða annan hátt og ættu að líta í eigin barm sem fyrst. Læra af þessu og koma fram af heilindum og borgarbúum til heilla.

Að lokum hef ég ekki annað að segja en spái að meirihlutinn springi áður en málefnasamningurinn verður kynntur (ef hann verður aldrei kynntur þá ráða málamiðlanir ferðinni og borgarbúar borga brúsann í sinnuleysinu meðan framapotararnir njóta embættistitlanna). 


Hvert ætlar Björn Ingi að hlaupa næst?

Þetta er alveg ótrúleg atburðarrás. Fyrst byrjar fyrrverandi meirihluti að hlaupa algerlega á sig og ganga frá samruna án þess að viðra það við nokkurn mann og síðan hleypur samstarfsflokkurinn úr meirihluti vegna ágreinings og reiði almennings.

Það eina sem kemur upp í huga minn er: Hvert ætlar Björn Ingi að hlaupa ef þessi meirihluti lendir í ágreiningi? Aftur til Sjálfstæðismanna?

Spái því að þetta verði stutt samstarf og hrynji jafnfljótt og það varð til.


mbl.is Samkomulag um nýjan meirihluta handsalað klukkan 14
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veikindi

Það er alltaf gaman á haustinn þegar flensufaraldrarnir fara láta á sér krækja. Sótti mér eina slíka með viðeigandi óþægindum. Svo náttúrulega smitast allir hinir fjölskyldumeðlimirnir líka og úr verður ein allsherjar veikindaveisla.

Lifið heil! 


Það rís!

Já steyptum sperrurnar í húsið í vikunni með miklum látum. Byrjuðum img_0454átta um morguninn að klára snurfusið sem eftir var og vorum að þvi alveg til eitt þegar steypubílarnir komu. Lentum síðan í bið og vorum því alveg til 5 að steypa og höfum gert að vana okkar að þrífa mótin (dokann) svo minna þurfi að skafa. 

Vikan hefur því farið í að rífa utan af húsinu og nú loks farið að sjást útlitslínurnar á húsinu en ekki á ég til mynd af þvi. Hins vegar á ég mynd af mér við húsið er við flögguðum í tilefni dagsins.

Nú ætti að fara að líða að fokeldingu hússins svo hægt verði að byrja innandyra. Allavega flytjum við inn á næsta ári, en hvenær? 

 


Besta plata ársins komin út?

Er að hlusta á plötu sem ég keypti mér og fell algerlega í stafi út af henni. Hljómsveitin heitir A Place To Bury Strangers og er frá Harlem í New York. Það má sjá dóm um plötuna hér en að mínu viti stendur þessi plata ansi nálægt því að vera besta plata ársins (er það allavega hingað til).

Ætla að hlusta meira og njóta þessara undursamlegu tóna. 


Vandamálafíkn

Hef stundum velt því fyrir mér hvort að höfundar sjónvarpsþátta séu með vandamálafíkn. Svo virðist sem ekkert geti gerst í sjónvarpsþáttum nema vandamál séu til staðar. Þetta á sérstaklega við um þætti eins og Nágranna, Leiðarljós en ekki síður þætti sem eiga að vera "betri" eins og E.R., House o.fl.

Hvers vegna eru ekki fleiri þættir sem ekki ganga út á vandamál? Margir grínþættir gera grín af þessum vandamálum sem sífellt virðast herja á fólkið í slíkum þáttum. Er líf okkar virkilega svona mikið vandamál að eina sem hægt er að skrifa um eru vandamál. Hvað með gleðina? Hvað með hið góða í okkur? Hvað með að hægt er að hafa gaman af efni þar sem vandamál koma ekki fyrir?

Ég er þess fullviss að það má vel hafa gaman að horfa á efni þar sem fólk nýtur sín, gleði er í fyrirrúmi og mannlegur kærleikur skiptir öllu máli.

Lifum lífinu! 


Að hafa gaman af hlutunum

Til að gera góðan hlut betri þarf að hafa gaman af hlutunum. Richard Branson vill meina að einn þáttur í árangri hans í viðskiptum sé að hafa gaman af hlutunum.

 Að hafa gaman af hlutunum þýðir ekki endilega að alltaf sé gaman af því sem við erum að gera. Heildarmyndin er skemmtileg og markmiðið sem stefnt er að er skemmtilegt ferli. Inn á milli eru leiðinleg verk sem þó þarf að gera.

Stundum hefur maður á tilfinningunni að fólk vilji bara hafa gaman öllum stundum og helst sleppa leiðinlegu verkunum. Við það fer eitthvað á mis og líklegast endar allt í vitleysu. Ég get ekki ímyndað mér að hjá þeim sem hafa gaman af því sem þeir gera sé alltaf gaman. Frekar að flest verkin eru svo skemmtileg að þau yfirvinna leiðinlegu verkin sem þarf líka að gera. Þannig höfum við gaman af hlutunum og gerum þá aðeins betur.

Svo mundu - AÐ HAFA GAMAN AF HLUTUNUM 


Þögn er málið

Í mörgu er þögnin eitt mikilvægasta tækið sem til er. Í tónlist og ræðu hefur þögnin mjög mikilvægu hlutverki að gegna til að skapa áherslu og veita innblástur. Samt sem áður virðist fara sífellt minna fyrir þögninni, bæði í ræðu og í tónlist. Það er eins og þögnin sé hættuleg.

 Staðreyndin er sú að þögnin er mjög mikilvæg og gefur hlutunum mun meira gildi. Hver kannast ekki við að vera úti í náttúrunni og heyra ekki neitt í algeru logni, að þá er eins og tíminn standi í stað. Eitthverra hluta vegna virðist fjölmiðlafólk ekki hafa neinn skilning á þessu og nota í sífellu bakgrunnstónlist eða innskot sem virðast koma frá fjandanum. Sama má segja um auglýsingar og markaðsmál að fáir þora að nota þögnina. Nema þegar steikja á viðmælandann að þá er spurningunni fleytt fram, spyrjandinn hallar sér fram (verður oft brúnaþyngri) og þegir meðan beðið er eftir svari.

Bestu lögin, bestu atriðin í kvikmyndum, bestu viðtölin, bestu ræðurnar o.s.frv. innihalda þagnir og mikið af þeim. Þær koma með réttu áhersluna og hjálpa okkur að skilja betur hlutinn.

 Meiri þögn takk!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband