18.9.2007 | 01:46
Vanmetnustu hljómsveitirnar
Sá blog um daginn þar sem skoðana könnun var gerð á ofmetnustu hljómsveitinni. Oasis vann það léttilega og áttu fyllilega skilið. Vanmetnasta hljómsveitin er allt annað mál og minna hugað að.
Fyrsta hljómsveitin sem kemur upp í hugann er Velvet Underground sem sló ekki í gegn fyrir en hún var hætt störfum og hafði gríðarleg áhrif á rokkið. Big star er annað nafn sem kemur líka upp í hugann. Ef við færum okkur nær í tíma þá kemur The Pastels upp í hugann, Big Black líka og á síðasta áratug má nefna Beta Band.
Í mínum huga hefur The Pastels þó vinningin. Hljómsveit sem starfaði á 9unda áratugnum og náði aldrei almennum vinsældum. Hafði þó gríðarleg áhrif á hljómsveit eins og The Jesus & Marychain og fleiri. Frábær hljómsveit sem því miður allt of fáir heyrðu en þeir sem heyrðu féllu í stafi. Til að mynda þá heyrðum við fjórir félagarnir í The Pastels á Hróarskelduhátíðinni 1989 og hrifumst svo mikið að við lögðum á okkur langan göngutúr í Kaupmannahöfn á mánudeginum eftir helgina bara til þess að kaupa plötu með hljómsveitinni. Engir smá tónleikar það!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.9.2007 | 00:14
Þarf virkilega allt þetta til að hlustað sé á íbúana
Það er fagnaðarefni að komið sé á móts við óskir íbúa á svæðinu en hins vegar verður að segja - þarf allt þetta til þess. Af hverju er skipulag ekki betur kynnt á meðal íbúanna áður en það fer í lokameðferð í stjórnkerfinu? Í laugardagsblaði Morgunblaðsins var heilsíðuauglýsing þar sem auglýstar voru lóðir í nýju hverfi við Guðmundarlund.
Þetta skipulag hefur ekki farið í almenna kynningu og úthluta á lóðum áður en búið er að ganga frá athugasemdum varðandi skipulagið. Mér finnst þetta röng vinnubrögð og verið að bjóða upp á árekstra eins og áttu sér stað á Kársnesinu. Hvað þarf eiginlega til að menn breyti vinnuferlinu í þessum málum?
Hef litla trú á að þetta breyti eitthverju í vinnuferli í skipulagsmálum í Kópavogi en satt að segja virðast þau vera í frekar einstrengislegum gír.
![]() |
Mótmæli íbúa báru árangur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.9.2007 | 00:12
Krataplott
Það er mikill gjörningur að fylgjast með Samfylkingunni. Frá því að vera stofnaður sem sameiningartákn vinstri manna í að fara góðan hægri snú, yfir til vinstri og enda sem krataflokkur.
Það er engin launung að Samfylkingin er orðin nákvæmlega eins og Alþýðuflokkurinn gamli. Þegar hlustað er á viðskiptaráðherra þá sönglar ESB aðild og Evru upptaka í öðru hvoru orði (svipað og hjá Alþýðuflokknum nema það hét EES). Utanríkisráðherra fremur gjörning sem engur skilur til hvers nema að friða nokkrar hvítar dúfur í Vesturbænum. Samgönguráðherra kemur algerlega af fjöllum og bendir á alla aðra en sig til að þurfa ekki að taka ábyrgð. Félagsmálaráðherra fær að láta heyra í sér hvað hún er sköruleg og umhverfisráðherra er þarna eitthvers staðar. Loks er verkalýðshreyfingin notuð til að mótmæla erlenda vinnuaflinu, umhverfisspjöllum og fleiru.
Plottið er sem sagt að stofna vinstri sameinaðan félagshyggju flokk, vera langt til hægri en þykjast vera vinstra megin. Taka ekki ábyrgð heldur benda á aðra og umfram allt að hygla vinum sínum. Og viti menn plottið gekk upp. Mín skoðun er samt sú að þessi flokkur fer sömu leið og forverinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.9.2007 | 13:16
Af hverju ég versla plötur og bækur á netinu
Sú staðreynd að hægt er að nálgast flestar bækur og plötur hér á landi fær mig ekki til að fara í þessar búðir. Í gamla daga fór ég í plötubúðir til að heyra hvað væri markverðast í dag og mest spenanndi. Fletta plötunum og fara spenntur heim að hlusta á herlegheitin.
Í dag er ekki sama tilfinning að koma inn í plötubúð. Ég verð alltaf jafn villtur þegar ég stíg inn í Skífuna og finn ekki neitt. Hreinlega veit ekki að hverju ég er að leita. Hef reyndar ekki komið inn í 12 tóna en kannsi þeir gætu rifjað upp þessa gömlu tilfinningu. Svipaða sögu er að segja um bókabúðir og þá staðreynd að erfitt að henda reiður á það sem vekur áhuga manns.
Því finnst mér best að versla á netinu. Ég get fengið tóndæmi og ákveðið mig út frá því, auk þess að ganga beint að efninu. Sama á við um bækur en sjái ég áhugaverða bók. Geri ég leit og get aflað mér upplýsinga hvort hún henti mér.
Tilmæli mín eru því að plötu- og bókaverslanir ættu að auðvelda viðskiptavinum upplýsingum að efninu á staðnum. Svipað og bókasöfn hafa gert með Gegni. Kannski það yrði til að auka sölu í þessum verslunum. Mín trú er samt sú að plötuverslanir munu sinna sífellt meir leikja- og kvikmyndaframleiðslu en bókin mun halda velli og hagur slíkra verlanna aukast.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.9.2007 | 22:11
Hvernig eigum við að aga okkur
Las viðtal við markmann KR-inga þar sem annars var komið inn á aga. Hann hafði fengið leyfi til að æfa með Bayern Munchen og í hroka sínum fannst honum ekki þurfa að borða morgunmat með öðrum liðsfélögum. Með tíð og tíma áttaði hann sig á þessum aga og hvers vegna þetta var gert.
Því miður er alltof algengt að aginn á Íslandi jaðrar við frostmark. Vissulega erum við öll sek um agaleysi en okkar eigið agaleysi kemur niður á okkur en ekki öðrum (of mikið sjónvarpsgláp sem dæmi). Agaleysi sem kemur niður á öðrum er því miður of algengt á Íslandi. Hver kannast ekki við að vera í röð (eða hnapp) fyrir framan afgreiðslu í sjoppu og eitthver sem kom inn á eftir þér ryðst fram og fær afgreiðslu.
Þetta er líka ansi algengt í umferðinni. Það má beygja á einni akrein en önnur heldur áfram. Þá heldur eitthver áfram og bíður svo fremst til að geta beygt. Til þess eins að hinir fyrir aftan verða enn seinni en ella. Á líka við um raðir á hringveginum þegar eitthverjir reyna sífellt að fara fram úr og hægja á öllum hinum.
Svona dæmi um tillitsleysi er í raun agaleysi einstaklingana. Þeir sjá ekki heildarmyndina fyrir eigin hagsmunum. Sem betur fer er meginþorri landsmanna tilitssamari en vert væri að spyrja okkur öll - hvar getum við agað okkur betur?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.9.2007 | 22:16
Hvernig væri að fá úttekt á þessum málum
Það vill svo til að nokkur fyrirtæki halda uppi þeim áróðri að taka upp evru en sömu fyrirtæki eiga mest af sínum viðskiptum í evrum. Aftur á móti, eins og Geir bendir á, er fullt af fyrirtækjum sem ekki gera það. Mér finnst alltaf jafn skrýtið hvers vegna fréttamenn geta ekki tekið almennilega úttekt á þessum málum og skýrt fyrir þjóðinni hversu mikilvægt það er að skipta um gjaldmiðil.
Meðan meirihluti fyrirtækja er ekki með viðskipti í evrum, hvað réttlætir þá svona fréttaflutning? Enn og aftur komast menn upp með að segja einhliða skoðun sína í fréttatímum á Íslandi án þess að fréttamenn kanni almennilega málin. Evran er engin töfralausn fyrir þjóðina þótt að nokkur fyrirtæki hagnist á því.
Vinsamleg tilmæli til fréttamanna á Íslandi - komið með úttekt á þessum málum og það út frá öllum hliðum, takk.
![]() |
Ekkert sem kallar á gjaldmiðilsbreytingu nú |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.9.2007 | 23:17
Er rokkið dautt?
Frá því ég fór að fylgjast að alvöru með rokk og popptónlist þá hefur sífellt verið tautað á því að rokkið sé dautt. Skrýtið að fyrir rúmum 20 árum þá er enn sama umræðan í gangi en enn lifir rokkið góðu lífi.
Fyrst ætla ég þó að vera sammála orðum Elton Johns að ekki sé gefið eins mikið af spennandi plötum út og áður. Eitthvað er við það en plötur sem eru útgefnar gefa ekki sama spenning og áður. Kannski er hin raunverulega ástæða allt hitt sem er svo spennandi að útgáfa plötu er ekki eins spennandi og áður. Sjálfum finnst mér ekki sama kraftur og ástríða og áður. Allt of mikið af plötum er bara gert af því að gaman er að vinna við þetta en engin ástríða virðist fylgja.
Tökum dæmi: Editors er góð hljómsveit sem gefur út grípandi lög. Hins vegar skortir hljómsveitina að draga algerlega sinn hlut fram þar sem eitthvert sjálfstraust eða eftirherma af öðru er eitthvern veginn sífellt í huga manns. Eitthvað sem mér finnst um margar hljómsveitir í dag og á t.d. um Artic Monkeys. Ekkert nýtt en haldið á lofti sem það besta í langan tíma. Get reyndar alls ekki verið sammála þessari dýrkun því þeir hafa lítið fram að færa og m.a. er lagið Hurricane með Bob Dylan dæmi um það (svo miklu betra en nokkuð sem Artic Monkeys hafa gert).
Hins vegar eru líka dæmi um hljómsveitir þar sem ástríðan er ráðandi og spennandi er að fylgjast með. The Lucky Soul er popphljómsveit sem spilar 60's popp en gerir það vel að sínu og með ástríðu. Skemmtileg tilbreyting frá öðru sem er í gangi. Hin hljómsveitin er A Place To Bury Strangers sem var enda við að gefa út plötu. Hef reyndar bara heyrt fimm lög með hljómsveitinni en ástríðan og leitin að þróa rokkið er til staðar. Hljómsveitin spilar í anda Shoe Gaze stefnunnar (My Bloody Valintine, Ride) með blöndu af Jesus & MaryChain og techno.
Slíkt er samt mun sjaldgæfara en áður og ég man þegar ég byrjaði að fylgjast með hljómsveitum eins og The Clash, Prefab Sprout, The Pogues, Jesus & MaryChain, Pixies, Sonic Youth, Triffids og Nick Cave hvernig ástríðan smitaði út frá sér og færði manni ánægju. Sífellt færri hljómsveitir í dag ná þessari ástríðu en eiga samt góð lög en þegar innihaldið er flutt í lagi en ekki gefið þetta extra þá vantar eitthvað.
Ég vil líka skrifa eitthvað á digital hljóðritanir, ipod og fleira. Digital hljómurinn er einfaldlega harðari og ekki eins ástríðufullur. Hljómsveitir gefa út grípandi lög en það er bara ekki nóg. Dæmi er Kaiser Chiefs sem gefa út grípandi popplög en eitthvað vantar. Þeir mega þó eiga það að kunna að spila á tónleikum og gera það af ástríðu en af hverju er ekki sama ástríða í lögum þeirra.
Rokkið er samt ekki dautt og mun lifa. Þetta er ekki spurningin um að finna upp hjólið lengur heldur að gera þetta af ástríðu og hafa gaman af þessu. Rokkið lengi lifi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.8.2007 | 22:48
Skipulagt kaos sveitarfélaganna
Þegar hugsað er til skipulagsmála á höfuðborgasvæðinu kemur fljótlega upp hugsunin um kaos. Ekki það að allt sé illa skipulagt og allt sé í kaos. Frekar á þeim grunni að eitthvað er ákveðið og það virðist vera hending að almenningur fái að vita af því sem verið er að vinna að.
Nú stendur til að mynda mikill styr um skipulag í Kópavogi og enduruppbygging Austurstrætis er í óvissu svo dæmi séu nefnd. Málið er að almenningur á lítinn möguleika að koma að málefnum þessara skipulagsmála fyrr en á lokastigum og fær ekki að gera athugasemdir fyrr en skipulag liggur fyrir.
Í mínum huga á almenningur að eiga kost á því að sjá skipulag á frumstigi, sérstaklega þeir sem búa í næsta nágrenni. Nú er t.d. verið að vinna skipulag upp á Vatnsendahæð rétt hjá þar sem ég byggi mitt hús. Þegar ég fékk úthlutað lóðinni vissi ég vel að þarna yrði byggt en svo vildi til að ég fékk að sjá tillögu að skipulagi þar og sé strax að skóli hverfisins er settur á rangan stað. Ef ég vildi gera athugasemdir við þessa tillögu þá verð ég að bíða þangað til allri vinnslu er lokið og fylgjast með auglýstum tíma til að gera athugasemdir.
Þetta finnst mér ekki rétt leið. Í dag er frekar auðvelt að dreifa upplýsingum á vefsíðum, með dreifipósti og fleiru. Mér finnst því að það ætti að breyta kerfinu og leyfa almenningi að koma fyrr að skipulagi svæðis sér í lagi þeir sem búa nærri. Hefði ég t.d. teiknað hús sem náði út fyrir byggingarreit þá hefði ég þurft að kynna það nágrönnum. Af hverju þurfa bæjarfélög ekki að fara í gengum sama ferli?
Það má frekar segja að skipulagsferlið sé hið sanna kaos í þessu öllu saman. Ef sveitafélög myndu bæta ferlið við skipulag hverfa þá yrðu færri árekstrar sem myndu leiða til betri sátta um þessi mál. Til að mynda með því að leyfa almenningi að koma fyrr að skipulagi eða gera ferlið aðgengilegra á einhvern hátt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.8.2007 | 23:57
Er þetta svona agalegt?
Það virðist tvennt sem fer voða mikið fyrir brjóstið á blaðamönnum og dálkahöfundum blaðanna þessa dagana. Annað er blogg og hitt eru nýríkir Íslendingar.
Mjög auðvelt er að sjá hvers vegna blaðamenn amast út í bloggið þar sem það ógnar atvinnu þeirra og mun að lokum leiða til breyttra áherslna í blaðaheiminum. Auk þess er ljóst að skrif blaðamanna eru sýjuð af ritstjórum sem þýðir að skoðanaskipti hafa oft verið lituð af t.d. stjórnmálaskoðunum. Blogg er því skemmtileg nýjung þar sem skoðanaskipti fá mun betur að njóta sín. Blaðamönnum til varnar má þó segja að sumir bloggarar fara fulllangt og eitthvað er um ábyrgðalaus skrif eða hreinlega algert bull. Blogg er samt komið til að vera en ljóst er þó að í núverandi mynd mun það ekki haldast og spennandi á sjá hvernig þessi birtingarmynd mun þróast.
Hitt sem blaðamenn amast mikið út í þessa dagana eru nýríkir Íslendingar. Svo sem augljóst þar sem blaðamenn eru ekki hálaunastétt en samt þó ekki eins augljóst þar sem sömu menn borga helming blaðamanna bein laun og hinum helmingnum eru þeir að skaffa tekur vegna auglýsinga fjölmiðlanna. Kannski er þetta bara íslensk lenska að amast út í þá sem ná árangri en gæti líka verið öfund. Held þó að þetta sé dönsk arfleið sem þeir kalla Jante (held það sé skrifað svona) lögin, en þau standa fyrir þá óskráðu reglu að enginn má vera fremri en aðrir. Einmitt það sama og blaðamenn á Íslandi segja - enginn má vera fremri en við.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.8.2007 | 23:26
Hver ber ábyrgðina?
Undanfarið hefur farið mikil umræða um hver ber ábyrgð á klúðrinu varðandi Grímseyjarferjuna. Vissulega ætti eitthver að bera ábyrgð á þessu klúðri og hvort að ráðherra gaf skipun eða ekki þá er þetta ekki síður klúður í kerfinu. Því finnst mér ekki nóg að láta ráðherrann blæða fyrir málið, það eru aðrir sem bera líka ábyrgð.
Í sama streng má segja um vanda landsbyggðarinnar og fiskveiðanna. Ábyrgð snýr að fiskveiði stjórnunarkerfinu. Öll þessi ár sem fiskveiðistjórnunarkerfið hefur verið við líði virðist (á umræðunni) að veitt hafi verið of mikið, fullt af fiski hent og notast við handónýtt rannsóknarferli. Ábyrgðin þar er samt allra aðila. Stjórnmálamenn fyrir að fara ekki að fullu að ráðum fræðimanna, fræðimenn fyrir að nota "handónýtt" kerfi og byggðanna sjálfra að láta útgerðir komast upp með að henda fisk.
Að bera ábyrgð er ekki einfaldur sannleikur því hvert mál hefur allavega tvær hliðar (ef ekki fleiri). Að láta eitthvern axla ábyrgð felur því í sér að reynt sé að komast að sannleikanum í málinu þannig að aðrir geti sannanlega lært af málinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)