21.1.2009 | 01:25
Leiðtogi óskast
Nú þegar sól hækkar á lofti og skil fara að myndast eftir bankahrunið þá er skýrasta krafan - fá leiðtoga fram á sjónarsviðið.
Staðreyndin er sú að meðal þingmanna er enginn leiðtogi sem getur þjappað fólki saman og komið þjóðinni í nýjan farveg. Ef byrjað er á formönnum þingflokkanna þá er Geir alltof tvístígandi og sem dæmi um leiðtogaleysi þá sagði hann við orðum Wades "... ég heyri ekki neitt nýtt." Eina sem fólk heyrði var "Ég heyri ekki". Þetta er bara lítið dæmi en þau eru ansi mörg um Geir. Vissulega góður fylgjandi en alls enginn leiðtogi.
Ingibjörg er lítið skárri. Segir gott einn daginn en algera þvælu hinn. Sem dæmi þá sagðist hún helst vilja taka þátt í mótmælum en gæti það ekki vegna stöðu sinnar. Leiðtogi talar einfaldlega ekki svona, annaðhvort er hann á staðnum og stendur við orð sín eða er einfaldlega ekki leiðtogi. Skipti hann um skoðun þá skýrir hann mál sitt. Það er ekki hægt að vera báðum meginn við borðið. Auk þess myndi leiðtogi ekki koma með svona tvískilnung í fjölmiðla. Leiðtogi er hreinn og beinn, nær til fólks, róar það, veitir innblástur og tekur af skarið. Ekkert af þessu hefur Ingibjörg eða Geir sýnt.
Stjórnarandstæðan er alls ekki skárri og í raun mun fjær að vera leiðtogar. Framsókn hefur ekki gert annað en að bíta hvern annan í skottið. Koma svo fram með einn óreyndan sem svar við kröfu fólksins um breytingar. Kannski það virki þar sem Sigmundur hefur unnið í sjónvarpi (vinnur greinilega með honum) en það sem ég hef heyrt af honum fellur ekki inn í þá mynd sem ég hef af leiðtoga. Best að gefa honum tækifæri og því verður betur svarað á næstu mánuðum.
Steingrímur J. er alltaf sami fýsibelgurinn og slær um sig með frösum og háði. Segir fátt um hvað eigi að gera en gagnrýnir allt. Leiðtogi þarf að geta komið með lausnirnar og þora að standa við þær. Leiðtoginn þarf líka að koma með þær áður er framkvæmt og benda á hvers vegna. Þetta fæ ég aldrei heyrt né séð hjá Steingrími J. Allt gengur út að gagnrýna og kvarta. Niðurrifsstarfssemi í stað uppbyggingar.
Frjálslyndi flokkurinn er úti að aka og hafa greinilega lítið að segja þessa dagana. Ef þeir hafa eitthvað að segja þá veit enginn hvað þeir eiga við.
Aðrir þingmenn segja fátt og kvarta yfir að sitja á hliðarlínunni??? Hvers konar leiðtogar eru það sem geta ekki stigið fram og tekið þátt í atinu í stað þess að kvarta bara?
Síðustu rúmu hundrað daga hefur enginn komið fram sem sýnir fram á leiðtogann sem getur sameinað fólk og fylgt eitthverri stefnu út úr vandanum. Allt gengur út á að finna sökudólginn, hálshöggva hann og vera nógu undirgefinn. Það er nefnilega athyglisvert hversu undirgefnir Íslendingar eiga að vera. Um tíma var vart talað um annað en að orðspor okkar væri svo slæmt í útlöndum. Sá sem er sjálfstæður og með góða sjálfsmynd myndi halda sinni stefnu og ekki hafa of miklar áhyggjur af þessu orðspori. Vissulega brotnaði sjálfsmynd okkar en við ættum samt að hafa nægt sjálfstraust til að halda okkar stefnu án þess að vera of upptekin af því.
Það má segja útrásavíkingunum til hróss að þeir komu okkur út úr þessum fasa um samanburð, undirgefni og lélega sjálfsmynd. Þeir þorðu en fóru alltof langt (gersamlega alltof langt) en gaman væri að skoða hvernig sjálfsmynd þjóðarinnar breyttist á þessum tíma úr samanburði við önnur lönd og undirgefni yfir í gott sjálfstraust. Til að mynda hvernig fjallað var um þessi efni í fjölmiðlum.
Nýtt Ísland á einmitt að byggja upp á góðu sjálfstrausti. Land sem þorir að fara sína leið og fylgja henni. Ekki of upptekið af samanburði eða stærð landsins. Vera ánægð með það sem við höfum og möguleikum okkar að byggja upp gott, öflugt og sterkt samfélag með góða sjálfsmynd.
Spurningin er ekki hver vill taka það að sér heldur
HVER GETUR TEKIÐ ÞAÐ AÐ SÉR?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.11.2008 | 01:53
Áskorun til þeirra sem vilja kosningar
Ég skora á þá sem vilja kjósa að koma með raunhæfa aðgerðaráætlun um hvað kosningar eiga að skila af sér. Hörður Torfa sem stendur fyrir mótmælum hvern laugardag vildi ekki spyrja ráðamenn landsins að neinu. Þannig fæ ég ekki séð út á hvað mótmælin ganga og hvað fæst með því að kjósa þar sem ekki virðist grundvöllur fyrir málefnalegum umræðum heldur á bara kjósa. Kjósa um hvað?
Eigum við að kjósa um sömu þingmenn? Eigum við að kjósa um sömu flokkana? Eigum við að setja skylirði á flokkana t.d. banna prófkjör? Eigum við að krefjast þess að núverandi þingmenn megi ekki sitja áfram? Eigum við að krefjast kosninga um embætti ríkisins s.s. seðlabankastjóra, lögreglustjóra, forstjóra Fjármálaeftirlitsins o.s.frv.? Eigum við að krefjast breytinga á kosningafyrirkomulagi? Eigum við að krefjast fækkun þingmanna?
Þessir mótmælendur segjast vera að tala fyrir hönd þjóðarinnar en hvernig má það vera þegar enginn veit hverju þeir eru að mótmæla. Hvað er verið að fara fram á og hvert er markmiðið. Þeir tala ekki fyrir mína hönd og ég er hluti af þjóðinni. Ég er þess fullviss að fleiri eru sammála mér og óska eftir svörum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.11.2008 | 16:33
Hver kúgar hvern?
Ég er alveg sammála því að Íslendingar láta ekki kúga sig en í þessum mótmælum kemur samt upp spurningin hver kúgar hvern?
Í fyrsta lagi þá er alls ekki á hreinu að meirihluti landsmanna vilji kosningar. Nokkur þúsund mótmælendur og skoðannakönnun staðfestir það ekki. Eiga nokkuð þúsund mótmælendur að ráða hvað gerist á Íslandi?
Í öðru lagi þá er sumum annt um orðspor okkar í alþjóðlegu samfélagi og þetta litla sem eftir er fær viðreiðsnar von með þessum aðgerðrum ríkisstjórnarinnar. Að mér læðist sá grunur að yrði kosið þá væri landið óstjórnhæft og upplausn ráðandi. Við það ástand munu fólksflutningar verða miklir því enginn vill búa við óöryggi.
Þannig fyrst þarf að vinna sig úr óvissunni og síðan má koma krafa um kosning.
Ég er Íslendingur og læt ekki kúga mig í enn meiri óvissu og óöryggi með kosningum núna.
![]() |
Íslendingar láti ekki kúga sig |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.11.2008 | 00:43
Viðhöldum jákvæðni
Síðustu sex vikur hafa hafa verið ótrúlegar á Íslandi. Fyrst er byrjað með því að slá okkur utan undir með þjóðnýtingu banka og á eftir fylgdi ótrúleg atburðarás sem leiddi til að 85% bankakerfisins var leyst til ríkisins.
Sitt sýnist hverjum í þessum málum en ljóst er að fyrst voru allir lamaðir í áfalli, því næst fór fólk að skríða úr fylgsnum sínum og móðursýki tók við. Eftir fylgdi tími er reiðin hefur fengið að krauma og stigmagnast (ekki hefur bætt úr upplýsingaleysi stjórnvalda). Allt á þetta sameiginlegt að á sama tíma er múgsefjun mikil þar sem í raun enginn veit neitt hvað gerist næst.
Fjölmiðlar apa hverja vitleysu upp án þess að setja eitt einasta spurningamerki við það hvað er verið að segja. Til vitnis um það eru vinsældatillögur ýmissa málpípa og útspil Ingibjargar Sólrúnar um sparnað í ráðuneyti sínu (sem var samt enginn).
Móðursýkin hefur líka verið mikil og alls konar kenninar um hitt og þetta. Slúður um eitt og annað sem oft hefur ekki verið neinn fótur fyrir t.d. þegar fólk fór og fyllti á bílinn þar sem bensínið átti að hækka í verði en það lækkaði síðan daginn eftir. Fréttir sem vísa til ótta fólks m.a. um matarskort eða ímynd Íslands sé í molum og hana sé ekki hægt að endurnýja.
Sem betur fer halda eitthverjir haus og geta bent á að auðvitað birtir upp um síðir. Ekkert er svo slæmt að ei boði gott o.s.frv. Til að mynda ætlar Háskólinn í Reykjavík að standa fyrir hugmyndasmiðju. Hættan er samt fyrir hendi og það sem er í raun tilefni þessara skrifa.
Góðar hugmyndir sem hjálpa fólki eru bara hugsaðar til skamms tíma. Þegar allt byrjaði þá var talað um að vera jákvæð og allt myndi batna aftur. Þessari umræðu var ekkert haldið áfram og dottið niður í dý neikvæðni. Tekin var versta myndin og hún sett upp sem væri raunveruleg. Ekkert segir okkur að sú þurfi að vera endanlega niðurstaðan. Það eru margar hliðar á málunum og þau æxlast oft öðruvísi en spáð er. Jákvæðni er ekkert sparitæki sem notast þegar illa árar. Jákvæðni er eitthvað sem þarf að temja sér öllum stundum, hvort sem vel gengur eða illa. Því miður virðast alltof margir eiga erfitt með það.
Viðhöldum jákvæðni - sjáum fyrir okkur að þetta gefi okkur enn betra samfélag. Samfélag með enn fleiri tækifæri, vinalegra, jafnara og umfram allt samfélag sem við erum stolt af.
Viðhöldum jákvæðni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2008 | 14:19
Hversu megnug erum við?
Það var skemmtileg grein í Lesbók Morgunblaðsins sem fjallaði um Secret bókina. Þar lýsti hann fordómum sínum gagnvart slíkum bókum en á sama tíma hvernig hún samt skilaði honum því sem hann óskaði sér.
Þetta fær mig til að velta fyrir mér hversu megnug erum við. Erum við fær um hvað sem er? Samkvæmt þessum bókum erum við það þrátt fyrir allt. Einu takmörkin eru í raun áhuginn á að framkvæma verkið og síðan aldurinn í vissum aðstæðum. Þótt slíkar bækur gangi fyrst og fremst út frá að eignast peninga þá er ég sammála að við erum ansi mögnuð og fær um að framkvæma ótrúlegustu hluti. Tækifærin eru allstaðar.
Já við erum ansi mögnuð og nú er bara að framkvæma það sem við viljum fá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.9.2008 | 15:04
Hvernig var svo hamingjan?
Hamingjan var fín en satt að segja þá er mjög auðvelt að láta afvegleiða sig. Lincoln sagði víst að hamingja ætti ekkert skylt við ytri aðstæður, hún kæmi innan frá.
Reynsla mín af þessum degi er sú sama þegar upp er staðið. Ég ræð hvernig ég tek því sem fyrir ber. Sumt gengur upp hjá manni annað ekki og sumt er leiðinlegt annað skemmtilegt. Hamingjan mælist ekki með að fá allt í hendurnar heldur hversu vel við tökumst á við aðstæður í daglega lífinu.
Föstudagurinn var kannski ekki hamingjusamast (enda fátt ef nokkuð sem toppar það að eignast barn) en þetta var skemmtieg tilraun og fyrir mér staðfesti orð Lincolns: "Við erum eins hamingjusöm og við viljum vera."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.9.2008 | 00:01
Hamingjusamur dagur
Mitt í öllu tali um "kreppu", "samdrátt" og annað í þeim dúr er skrýtið til þess að hugsa að ekki sé hægt að eiga hamingjusaman dag. Oft er svo að auðveldara virðist að fárast og amast yfir hlutunum en að sjá hamingjuna. Hversu oft eru fréttir af hamingju í fjölmiðlum? Sjaldnar en vond tíðindi.
Lög um hamingju eru líka sjaldheyrðari en sorgarlögin. Til dæmis hin frábær plata frá Beach Boys - Pet Sounds fjalla öll lögin um ástarsorgir.
Er eitthvað sem er auðveldara að samsama sig við hið raunamædda frekar en hamingju? Mér finnst það ekki og til að mynda notar maður færri vöðva til að brosa en að vera í fýlu. Í dag ætla ég að hlusta á lög um hamingju t.d. Oh happy day!, Happy, Have a Nice Day o.s.frv. og koma mér í gott skap.
Síðan ætla ég að eiga hamingjusamasta dag minn hingað til.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.5.2008 | 12:42
Þjónustuleysi
Neytendavakt á Íslandi hefur í gegnum tíðina verið lítil og að mestu snúist um verð. Neytendasamtökin eru fín samtök sem birta bæði verð og þjónustu. Dr. Gunni tók sig svo til um daginn og setti upp síðu um okur þe. mismunandi verð eftir verslunum á sömu vöru.
Allt í fínu með það en hins vegar er minna talað um þjónustu. Þar sem ég er húsbyggjandi og þarf að versla á mörgum ólíkum stöðum þá er alveg ótrúlegt að upplifa þjónustuleysið í verslunum. Það sem kemur líka á óvart er að þetta þjónustuleysi á við um alla tegund þjónustu og verslunar, ekki bara byggingariðnaðinn.
Dæmin snúast oft um hversu afskiptur viðskiptavinurinn er, eins og söluaðilinn hafi engann áhuga á viðskiptum. Samt eru þetta þekkt fyrirtæki. Ég held að þetta stafi helst af fákeppni þar sem fáir aðilar eru að versla og allir með svipað verð. Annað gæti líka verið spennan á markaðinum (dæmin eru samt eftir niðursveifluna). Í þriðja lagi má síðan nefna ónógri þjálfun starfsmanna.
Þessu öllu blandað saman gefur ekki góða raun og því miður er þetta alltof algengt. Ég óska ekki eftir betri þjónustu, ég krefst hennar því verðið sem mér er boðið býður ekki upp á annað en hágæðaþjónustu. Það er líka athyglisvert þegar borið er saman verð miðað við önnur lönd að yfirleitt er valið höfuðborg landsins. Til að mynda eru höfuðborgir hinna Norðurlandanna miklu stærri en Reykjavík. Væri ekki nær að bera saman við eitthvað svipaðra í stærð og fjær höfuðborginni, t.d. Álaborg í Danmörku, Tromsö í Noregi o.s.frv. Ef verð í Tromsö er lægra en hér þá hafa íslenskir söluaðilar enga afsökun því sé flutningskostnaður tekinn inn þá er ansi langt þangað og markaðssvæðið ekki stærra. Er þetta raunin?
Fyrir þetta verð sem okkur er boðið eigum við skilið mun betri þjónustu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.5.2008 | 00:05
Evrutal er steypa
Það er athyglisvert á undanförnum mánuðum eftir að krónan féll hversu margir tala um að taka upp evru sem gjaldmiðil. Það sem er enn athyglisverðara er að sumir halda að hægt sé að taka upp evru án þess að ganga í Evrópubandalagið.
Að taka upp evru er engin töfralaus og mun fyrst og fremst hagnast innfluttningsaðilum sem maka þá krókinn enn frekar. Er ekki nóg að innfluttningsaðilar noti gengið sem afsökun til að hækka verðið heldur eiga þeir líka að geta falið sig á bakvið annan gjaldmiðil til að viðhalda hárri álagningu.
Í sjálfu sér skiptir ósköp litlu máli hvaða gjaldmiðill annar er tekinn upp svo lengi sem hann hafi sterka tenginu. Til dæmis væri ekkert verra að hafa Svissneskan franka. Stöðugur gjaldmiðill með sterkt bakland. Hvers vegna þá þessi áhersla á evru?
Evrutal er steyputal. Að fela sannleikann inn í steypunni því evrutal er ekkert annað en innganga í Evrópubandalagið tal. Í anda flokks sem felur allt í málskrúði þá er eðlilegt að hann stökkvi upp þegar færi gefst og mjatlar að innleiða evru. Hvers vegna minnkar samfylkingin í skoðannakönnun þegar fylgjendum Evrópusinna fjölgar? Einfaldlega vegna þess að allt talið er steypa sem best væri að móta í knött og sparka út í hafsauga. Hættum þessum málskrúða og tölum af hreinskilni. Er umsókn um aðild að Evrópusambandinu raunhæfur kostur fyrir Íslendinga? Ekki enn en við nálgumst það mjög hratt.
Ég segi nei við evrutali.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.4.2008 | 00:52
Fákeppni neytenda
Nú virðist sá tími vera þar sem erfiðleikar eru í viðskiptalífinu. Tölum fer nú ekki alveg saman því t.d. hefur nýskráning bifreiða síst minnkað og er í raun meiri en í fyrra. Ekki bendir það til erfiðleika og þá kemur upp sú hugsun hvort í raun séu þessir erfiðleikar bundnir við ákveðið.
Allavega virðist sem að neytendur séu í fákeppni. Umtalað er í fjölmiðlum um erfiðleika og þá eiga allir í erfiðleikum. Er það bara ekki lýsing á fákeppni. Að láta aðra segja sér hvernig ástandið er og trúa að það sé þannig. Björgólfur Thor Björgólfsson lýsti því yfir í viðtali á Stöð 2 að við værum í kreppu sem gæti varað allt þetta ár og jafnvel lengur á Íslandi. Eru þessi orð hans sönn eða bara spá. Auðvitað eru þau hans mat á ástandinu en segja samt ekki að ástandið verði svona. Hann hefur ekkert meiri spágáfur en við hin.
Staðreyndin er nefnilega sú að hann er í hringiðu þar sem skortur er á lausafé og hann finnur fyrir kreppu. Þeir sem ekki eru að fjárfesta og leita ekki eftir lausafé eru varla í kreppu? Nei og það er alveg rétt hjá Björgólfi að fjárfestar hafa verið á fylleríi og nú sé komið að skuldadögum. Það á hins vegar ekki við um almenning.
Fákeppni neytenda er því að trúa svona orðum þannig að allt líf þeirra eigi að sveiflast með þeim. Með öðrum orðum má orða það sem kreppa því trúin á að gera hlutina kemur frá manni sjálfum en ekki þeim sem lýsa ástandi.
Hættum þessu krepputali og förum að lifa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)